Goðsögn Liverpool afhendir van Dijk bikarinn

Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool.
Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool. AFP/Glyn Kirk

Alan Hansen, einn dáðasti leikmaður í sögu enska knattspyrnufélagsins Liverpool, mun afhenda Virgil van Dijk Englandsmeistarabikarinn á sunnudaginn kemur.

Enska félagið greindi frá þessu á heimasíðu sinni en Hansen lék með Liverpool á árunum 1977 til 1991 og varð átta sinnum Englandsmeistari með liðinu. Hann lék 434 leiki með liðinu í efstu deild og spilaði einmitt sömu stöðu og Virgil van Dijk, var algjör lykilmaður í varnarleik liðsins.

Þá varð hann þrívegis Evrópumeistari með Liverpool, tvívegis bikarmeistari og fjórum sinnum deildabikarmeistari.

Liverpool tryggði sér Englandsmeistaratitilinn á dögunum þegar fjórum umferðum var enn þá ólokið en leikmenn liðsins fá bikarinn afhentan eftir lokaleikinn gegn Crystal Palace á Anfield á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert