„Þú ert apaköttur ef þú kýst ekki Salah“

Mohamed Salah hefur átt frábært tímabil.
Mohamed Salah hefur átt frábært tímabil. AFP/Glyn Kirk

Chris Sutton, sparkspekingur hjá BBC og fyrrverandi leikmaður Blackburn og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, lét áhugaverð ummæli falla á dögunum.

Kosningar standa nú yfir í ensku úrvalsdeildinni þar sem er meðal annars kosið um leikmann ársins í deildinni og besta unga leikmanninn í deildinni.

Liverpool varð Englandsmeistari á dögunum með miklum yfirburðum þegar fjórum umferðum var enn þá ólokið en liðið hefur verið nánast óstöðvandi allt tímabilið.

Komið að 46 mörkum

Egyptinn Mohamed Salah hefur verið einn allra besti leikmaður Liverpool á tímabilinu þar sem hann hefur skorað 28 mörk í 37 deildarleikjum og lagt upp önnur 18 til viðbótar. 

„Tölfræðin hans er gjörsamlega sturluð,“ sagði Sutton í samtali við BBC þegar hann ræddi kjörið á besta leikmanni deildarinnar.

„Salah hefur komið að 46 mörkum í deildinni, það er meira en United tókst að skora. Hvernig getur þú ekki kosið hann? Þú ert apaköttur ef þú kýst ekki Salah,“ bætti Sutton við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert