Tottenham sló ótrúlegt met

Ange Postecoglou íhugull á hliðarlínunni í gær.
Ange Postecoglou íhugull á hliðarlínunni í gær. AFP/Justin Tallis

Tottenham Hotspur sló óeftirsóknarvert met þegar liðið tapaði 1:4 fyrir Brighton & Hove Albion í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í gær.

Tottenham tapaði alls 22 af 38 leikjum sínum í deildinni á tímabilinu og er fyrsta liðið í sögu efstu deildar á Englandi sem fellur ekki niður í B-deild þrátt fyrir að tapa svo mörgum leikjum.

Tottenham tapaði 26 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu, sem er félagsmet yfir flest töp á einu tímabili.

Liðið hafnaði í 17. sæti með 38 stig í úrvalsdeildinni, sem kom ekki að sök þar sem nýliðarnir þrír á tímabilinu, Leicester City, Ipswich Town og Southampton, áttu skelfilegu gengi að fagna og féllu rakleitt aftur niður í B-deildina.

Tottenham fer þrátt fyrir þennan afleita árangur í deildinni í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili eftir að hafa unnið Evrópudeildina í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert