Sæmdur breskri heiðursorðu

David Moyes með orðuna fyrir utan Windsor-kastala í dag.
David Moyes með orðuna fyrir utan Windsor-kastala í dag. AFP/Aaron Chown

David Moyes, knattspyrnustjóri Everton, var sæmdur orðu Breska heimsveldisins við hátíðlega athöfn í Windsor-kastala í útjaðri London í dag.

Moyes, sem er 62 ára gamall Skoti, fékk afhenta OBE-orðuna sem er í fjórða sæti af fimm heiðursmerkjum Bretlands og er veitt þeim sem hafa átt sérlega góðan feril í listum, íþróttum, vísindum, góðgerðastarfi og almannaþjónustu.

Moyes stýrði Everton frá 2002 til 2013, þá Manchester United í eitt ár og síðan West Ham frá 2017 til 2024. Hann tók síðan við Everton á ný í janúar á þessu ári.

Vilhjálmur prins sæmdi Moyes orðunni og Skotinn sagði við BBC eftir afhendinguna að væntanlega hefði það verið sigur West Ham í Sambandsdeildinni vorið 2023 sem hefði gert útslagið.

„Það var mjög stórt að vinna titil með West Ham og ég hef verið afar heppinn að eiga svona langan starfsferil í fótboltanu," sagði Moyes sem er þriðji leikjahæsti stjórinn frá stofnun úrvalsdeildarinnar, á eftir Alex Ferguson og Arsene Wenger.

Þess má geta að Moyes-fjölskyldan hefur talsverð tengsl við Ísland. David faðir hans kom oft til Íslands og þjálfaði Þrótt úr Reykjavík hluta tímabilsins 1976. Þá var David sjálfur á Íslandi sem unglingur og lék með 3. flokki ÍBV sumarið 1978, en hóf síðan meistaraflokksferilinn með stórliðinu Celtic tveimur árum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert