Justin Kluivert, sóknarmaður enska knattspyrnuliðsins Bournemouth, vonast eftir því að samherji hans Milos Kerkez fari frá félaginu til Liverpool í sumar.
Sky Sports skýrði frá því í vikunni að Liverpool væri búið að hafa samband við Bournemouth varðandi kaup á ungverska bakverðinum sem er mikils metinn eftir frábæra frammistöðu með Bournemouth á nýliðnu keppnistímabili.
„Hann fer ábyggilega þangað. Ég vona að af því verði, hans vegna. Hann hefur ekki kvatt okkur ennþá en ég vona að þetta gangi upp hjá honum," er haft eftir Kluivert í hollenska knattspyrnufjölmiðlinum Voetbalprimeur.
Kerkez er 21 árs gamall og hefur leikið 66 úrvalsdeildarleiki með Bournemouth eftir að hann kom þangað frá AZ Alkmaar í Hollandi fyrir tveimur árum. Þá hefur hann þegar leikið 23 landsleiki fyrir Ungverjaland.