Gæti bjargað Evrópusæti Palace

Bandaríski kaupsýslumaðurinn John Textor.
Bandaríski kaupsýslumaðurinn John Textor. AFP/Clément Mahoudeau

Bandaríski kaupsýslumaðurinn Woody Johnson, eigandi New York Jets í NFL-deildinni í ruðningi, hefur boðist til þess að kaupa hlut landa síns John Textor í enska knattspyrnufélaginu Crystal Palace.

Þátttaka Palace í Evrópudeildinni á næsta ári er í óvissu vegna reglu Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, um að einstaklingur megi ekki vera við stjórn hjá fleiri en einu knattspyrnufélagi.

Textor er í forsvari fyrir Eagle Football, sem á fjölda knattspyrnufélaga víðs vegar um heim, þar á meðal minnihluta í Palace og meirihluta í franska félaginu Lyon.

Bauð 170 milljónir punda

Þar sem Lyon er einnig búið að tryggja sér sæti í Evrópudeildinni á næsta tímabili er þátttaka Palace í keppninni í hættu.

Palace hefur reynt að sýna UEFA fram á að Textor fari ekki með stjórnarvald hjá félaginu, en Eagle Group á 43 prósent hlut í því. Hann er hins vegar forseti Lyon.

Á meðan er Textor ólmur í að reyna að selja hlut sinn til þess að greiða götu Palace í Evrópu.

Samkvæmt enska miðlinum The Times hefur Johnson boðið 170 milljónir punda, 29 milljarða íslenskra króna, til þess að taka yfir hluta Textors í Palace.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert