Bíður eftir símtali frá Manchester United

Emiliano Martinez vill vera áfram á Englandi.
Emiliano Martinez vill vera áfram á Englandi. AFP/Alejandro Pagni

Emiliano Martínez, markvörður Aston Villa og argentínska landsliðsins í knattspyrnu, bíður eftir símtali frá Manchester United.

Þetta segir argentínski netmiðillinn Bolavip en talið er að Aston Villa þurfi að selja Martínez til að laga fjárhagsstöðu sína gagnvart  fjárhagslegri háttvísi ensku úrvalsdeildarinnar.

Bolavip segir að Martínez vilji leika áfram á Englandi. Galatasaray hefur, samkvæmt heimildum netmiðilsins, þegar haft samband við Aston Villa vegna markvarðarins.

Hann er sagður bíða eftir því að United hafi samband en þar sem André Onana hefur ekki ennþá verið seldur frá Rauðu djöflunum hefur ekkert gerst frekar í því.

Martínez er 32 ára gamall og hefur verið á Englandi í þrettán ár. Hann var í átta ár hjá Arsenal en komst aldrei að sem aðalmarkvörður og var lánaður víða. Hann hefur hins vegar slegið í gegn með Aston Villa, leikið 181 leik í úrvalsdeildinni og komst í argentínska landsliðið vegna frammistöðu sinnar þar.

Martínez hefur nú leikið 53 landsleiki og varði mark Argentínumanna þegar þeir urðu heimsmeistarar árið 2022, sem og þegar þeir unnu Ameríkubikarinn 2021 og 2024. Hann hefur tvisvar á undanförnum þremur árum verið kjörinn besti markvörður heims hjá FIFA og fengið Yashin-bikarinn í Ballon d'Or undanfarin tvö ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert