Enska knattspyrnufélagið Tottenham hefur höfðað mál gegn fyrirtækinu INEOS, fyrirtæki meðeiganda Manchester United, Sir Jim Ratcliffe.
Árið 2022 gerðu INEOS og Tottenham fimm ára samning um að bíll INEOS, Grenadier, yrði opinber bíll félagsins.
Í desember á síðasta ári ákvað INEOS að slíta samningum og eru forráðamenn Tottenham ekki ánægðir og hafa ákveðið að fara með málið fyrir dómstóla.
Samkvæmt INEOS hafði fyrirtækið heimild til að slíta samningnum en Tottenham á enn eftir að tjá sig um málið.
Svipað mál átti sér stað fyrr á árinu þegar Rúbbísamband Nýja-Sjálands höfðaði mál gegn INEOS eftir að fyrirtækið sagði úr samkomulagi við sambandið.