Bale að eignast hlut í liði landsliðsmannsins?

Gareth Bale.
Gareth Bale. AFP/Nicolas Tucat

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Gareth Bale er sagður vera í viðræðum með bandarískum fjárfestingarhóp um kaup á enska knattspyrnufélaginu Plymouth Argyle.

The Telegraph greinir frá þessu en Bale á að vera andlit bandaríska fjárfestingarhópsins.

Landsliðsmaðurinn Guðlaugur Victor Pálsson leikur með Plymouth sem féll niður í C-deildina eftir að hafa hafnað í næstneðsta sæti B-deildarinnar á síðustu leiktíð.

Simon Hallett, stjórnarformaður Plymouth, hefur verið að leita að nýjum fjárfestum í félaginu.

Bale lék aldrei með Plymouth á ferli sínum en hann lék með bæði Southampton og Tottenham á Englandi. Hann var þó lengst hjá spænska stórveldinu Real Madrid þar sem hann vann allt sem hægt er að vinna.

Gamall liðsfélagi Bale, Luka Modric, keypti hlut í enska félaginu Swansea fyrr á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert