Spánverjinn Carlos Cuesta, sem er aðeins 29 ára gamall, verður næsti knattspyrnustjóri karlaliðs Parma á Ítalíu.
Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano segir frá en Cuesta er aðstoðarmaður Mikels Arteta, stjóra karlaliðs Arsenal.
Cuesta hefur verið aðstoðarmaður hjá Arsenal síðan í ágúst 2020 en Arteta tók við Arsenal í desember 2019. Fyrir það var hann aðstoðarþjálfari hjá U17 ára liðum Juventus og Atlético Madrid.
Cuesta mun taka við liðinu af Rúmenanum Cristian Chivu sem er orðinn stjóri Inter Mílanó.