Knattspyrnumaðurinn Michail Antonio sneri aftur á völlinn, sex mánuðum eftir hræðilegt bílslys, þegar hann kom inn á fyrir jamaíska landsliðið í 1:0-tapi liðsins gegn Gvatemala í Norður- og Mið-Ameríkubikarnum í nótt.
Antonio, sem leikur með West Ham United, lenti í alvarlegu bílslysi í byrjun desember á síðasta ári. Hann mölbraut á sér fótinn og var ekki víst að hann gæti spilað fótbolta aftur.
Antonio kom inn á 85. mínútu fyrir Jamaíka en þetta er hans fyrsti leikur síðan 3. desember á síðasta ári.