Enska knattspyrnusambandið hefur kært úkraínska kantmanninn Mykhailo Mudryk, leikmann Chelsea, fyrir brot á reglum sambandsins um lyfjamisnotkun. Gæti hann staðið frammi fyrir fjögurra ára keppnisbanni.
Mudryk féll á lyfjaprófi í nóvember síðastliðnum og var úrskurðaður í bráðabirgðabann af enska sambandinu í desember. Eftir að hafa skilað inn þvagprufu kom í ljós að Mudryk hafði innbyrt lyf á bannlista.
Má enska sambandið dæma hann í allt að fjögurra ára keppnisbann samkvæmt reglum Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, þyki sannað að Mudryk hafi innbyrt lyfið viljandi.
Í desember sagðist Mudryk vera í áfalli yfir niðurstöðunni og létEnzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, hafa það eftir sér að allir hjá félaginu stæðu við bakið á honum þar sem Úkraínumanninum væri trúað.
Chelsea gaf það út í desember að það væri að leitast eftir að finna út hvers vegna Mudryk hafi fallið á lyfjaprófi; hann hafni því alfarið að hafa viljandi innbyrt ólögleg efni.