Egyptinn Mohamed Salah, lykilmaður hjá Englandsmeisturum Liverpool í knattspyrnu, gæti misst af allt að sex leikjum með liðinu í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Afríkukeppnin fer fram í desember á þessu ári og næstkomandi janúar en það er breyting á því sem áður var, þegar hún fór einungis fram í janúar og byrjun febrúar.
Mótið fer af stað 21. desember og er til 18. janúar. Þar á milli spilar Liverpool fimm leiki og einn gegn Tottenham á útivelli degi fyrir mótið.
Ef Egyptar ná alla leið gæti Salah misst af heimaleikjum gegn Wolves og Leeds í desember, útileikjum gegn Fulham og Arsenal í byrjun janúar og loks heimaleik gegn Burnley um miðjan janúar.