Enska knattspyrnufélagið Tottenham hefur verið sektað um 75 þúsund pund eða um tólf og hálfa milljón íslenskra króna fyrir níðandi söngva stuðningsmanna karlaliðsins í garð samkynhneigðra.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá enska knattspyrnusambandinu en stuðningsmenn Tottenham eiga að hafa sungið á niðrandi hátt um samkynhneigt fólk á 49. og 79. mínútu í leik liðsins gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í september í fyrra. Tottenham vann leikinn á Old Trafford, 3:0.
Tottenham fordæmdi söngva stuðningsmannanna beint eftir leik og lýsti þeim sem „algjörlega óásættanlegum.“ Félagið sagðist þá strax ætla grípa til aðgerða.