Gündogan á leið til Tyrklands

Ilkay Gündogan er líklegast á förum frá Manchester City.
Ilkay Gündogan er líklegast á förum frá Manchester City. AFP

Ilkay Gündogan, þýskur miðjumaður enska knattspyrnuliðsins Manchester City, er að öllum líkindum á förum frá félaginu í sumar og er talið líklegast að hann endi hjá tyrkneska félaginu Galatasaray.

Samkvæmt franska miðlinum L´Equipe hefur Galatasaray náð samkomulagi við Gündogan um að ganga til liðs við félagið en félagið hefur þó ekki hafið viðræður við Manchester City þar sem þeir telja að ekki sé mögulegt að fá Gündogan fyrr en eftir að Manchester City hefur lokið leik á Heimsmeistaramóti félagsliða sem nú er í gangi.

Gündogan hefur spilað átta af síðustu níu tímabilum hjá Manchester City en hann tók eitt tímabil hjá Barcelona tímabilið 2023-24. Hjá Manchester City hefur hann spilað 221 leik og skorað í þeim 45 mörk.

Manchester City hefur verið að styrkja miðjusvæðið undanfarið og með komu Nico Gonzalez í janúar síðast liðnum og Tijjani Reijnders á dögunum hefur tækifærum Gündogans með liðinu farið fækkandi og líklegt þykir að hann færi sig til Tyrklands á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert