Níu ára Liverpool-dvöl að ljúka

Nat Phillips verst Erling Haaland í bikarleik fyrir Liverpool og …
Nat Phillips verst Erling Haaland í bikarleik fyrir Liverpool og Manchester City árið 2022. AFP/Oli Scarff

Enski knattspyrnumaðurinn Nat Phillips mun í dag gangast undir læknisskoðun hjá enska B-deildar liðinu West Bromwich Albion, sem kaupir hann frá Liverpool.

The Athletic greinir frá.

Phillips, sem er 28 ára miðvörður, hefur verið á mála hjá Liverpool undanfarin níu ár eftir að hafa komið frá uppeldisfélagi sínu Bolton Wanderers.

Hann lék alls 29 leiki fyrir Liverpool, flesta tímabilið 2020-21, og skoraði í þeim eitt mark. Annars var Phillips margsinnis lánaður annað.

Guðsonur Guðna Bergs

Lék hann síðast með Derby County á láni og hafði einnig leikið með Cardiff City, Celtic, Bournemouth og Stuttgart sem lánsmaður.

Faðir Phillips, Jimmy, lék um langt árabil með Bolton og þar á meðal með Guðna Bergssyni fyrrverandi landsliðsfyrirliða. Varð Jimmy og Guðna vel til vina, svo vel að Guðni er guðfaðir Nats.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert