Nýliðar Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafa krækt sér í reyndan landsliðsmann fyrir átökin næsta vetur.
Félagið tilkynnti nú síðdegis að gengið hefði verið frá kaupum á slóvenska varnarmanninum Jaka Bijol frá Udinese á Ítalíu og talið er að hann kosti um 15 milljónir punda.
Bijol er 26 ára miðvörður og hefur samið við Leeds til fimm ára. Hann á að baki 63 landsleiki fyrir Slóveníu og var í lykilhlutverki hjá liðinu á EM 2024 þar sem það gerði m.a. markalaust jafntefli við England.
Bijol lék 90 leiki með Udinese í ítölsku A-deildinni en spilaði áður með CSKA Moskva í Rússlandi og Hannover í Þýskalandi.
Leeds hefur þá keypt tvo leikmenn í sumar en áður fékk liðið þýska sóknarmanninn Lukas Nmecha frá Wolfsburg.