Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur komist að samkomulagi við Brighton um kaup á brasilíska landsliðsmanninum Joao Pedro fyrir 60 milljónir punda.
Pedro, sem er 23 ára gamall sóknarmaður, mun skrifa undir sjö ára samning við Lundúnafélagið að læknisskoðun lokinni.
Hann flýgur nú beint frá Brasilíu til Bandaríkjanna, þar sem Chelsea er komið í átta liða úrslitin á heimsmeistaramóti félagsliða. Liðin sem spila þar mega bæta við leikmönnum til fimmtudags og Pedro gæti því leikið með Chelsea gegn Palmeiras frá Brasilíu á föstudagskvöldið.
Watford mun fá 20 prósent af andvirðinu, eða um 12 milljónir punda, vegna klásúlu í samningi við Brighton þegar Pedro var seldur þangað fyrir 35 milljónir punda. Pedro kom til Watford frá Fluminense árið 2020 og lék þar í þrjú ár.
Pedro skoraði 10 mörk í 27 leikjum Brighton í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
