Keyptu ungan fyrirliða fyrir metfé

Habib Diarra í þann veginn að skora fyrir Senegal í …
Habib Diarra í þann veginn að skora fyrir Senegal í óvæntum sigri á Englendingum í vináttulandsleik í Nottingham í síðasta mánuði. AFP/Paul Ellis

Sunderland, sem verður nýliði í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á næsta tímabili, sló félagsmetið í dag með því að kaupa fyrirliða franska knattspyrnuliðsins Strasbourg.

Það er Habib Diarra, landsliðsmaður Senegal, sem er aðeins 21 árs gamall en var í lykilhlutverki hjá Strasbourg í vetur þegar liðið tryggði sér Evrópusæti með góðum árangri í frönsku 1. deildinni.

Sunderland greiðir Frökkunum 30 milljónir punda fyrir Diarra, sem á að fylla skarð táningsins Jobe Belllinghams, sem var seldur til Dortmund í sumar.

Sunderland hefur þar með varið 50 milljónum punda í að styrkja liðið í sumar en það hafði áður keypt Enzo Le Fee frá Roma á Ítalíu fyrir 20 milljónir.

Félagið hafði betur í baráttu við aðra nýliða í deildinni, Leeds, sem reyndu einnig að fá Senegalann í sínar raðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert