Arne Slot: Það skuldum við Diogo

Diogo Jota og Arne Slot.
Diogo Jota og Arne Slot. Ljósmynd/Samsett/AFP

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna andláts Diogo Jota, leikmanns enska liðsins, sem lést í bílslysi í gærkvöld.

Slot segir í yfirlýsingunni sem birtist á vef Liverpool síðdegis í dag:

Hvað get ég sagt? Hvað getur nokkur maður sagt einmitt núna þegar áfallið og sársaukinn hafa dunið yfir. Ég vildi að ég hefði réttu orðin á takteinum en veit að þau hef é ekki.

Ég hef bara tilfinningar sem ég veit að fjöldi fólks deilir með mér um persónuna og leikmanninn sem við elskuðum innilega og fjölskylduna sem hugurinn leitar til.

Mín fyrstu viðbrögð eru ekki sem knattspyrnustjóri. Það eru viðbrögð föður, sonar, bróður og frænda og þau beinast að fjölskyldu Diogo og André Silva sem hafa orðið fyrir óútskýranlegum missi.

Mín skilaboð til þeirra eru einföld - þú gengur aldrei einn (e: You will never walk alone). Leikmenn, starfslið og stuðningsfólk knattspyrnufélagsins Liverpool stendur allt með ykkur og miðað við viðbrögð dagsins er sama að segja um alla fótboltafjölskylduna.

Þetta eru ekki bara viðbrögð við harmleik. Þetta eru líka viðbrögð við góðmennsku þeirra sem um ræðir, virðinguna sem svo margir bera fyrir þeim sem einstaklingum og til fjölskyldunnar allrar.

Fyrir okkur sem félag er áfallið algjört. Diogo var ekki bara leikmaður í okkar liði. Við elskuðum hann öll. Hann var liðsfélagi, samherji, vinnufélagi, og í öllum þessum hlutverkum var hann mjög sérstakur.

Ég gæti sagt fjölmargt um hvað hann færði okkar liði en málið er að allir sem fylgdust með Diogo spila fótbolta sáu það með eigin augum. Vinnusemi, þrá, einbeitingu, mikla hæfileika og mörk. Eiginleikana sem allir leikmenn Liverpool ættu að hafa.

En sumt vita ekki allir um. Hann sóttist aldrei eftir vinsældum en varð samt afar vinsæll. Hann átti ekki bara tvo vini, allir voru vinir hans. Hann fékk aðra til að líða vel með sjálfa sig, bara með nærveru sinni. Honum var einstaklega annt um fjölskylduna sína.

Síðast þegar við töluðum saman óskaði ég Diogo til hamingju með sigurinn í Þjóðadeildinni (með Portúgal) og óskaði honum góðs gengis í fyrirhuguðu brúðkaupi. Á margan hátt var þetta algjört draumasumar hjá Diogo og fjölskyldu hans, sem gerir það enn sárara að það skyldi enda svona.

Þegar ég kom fyrst til félagsins var einn af fyrstu söngvum áhorfenda sem ég heyrði um Diogo. Ég hafði ekki unnið með honum áður en áttaði mig strax á því að fyrst stuðningsfólk Liverpool, sem hefur séð svo marga stórkostlega leikmenn spila fyrir félagið, var með svona sérstakan söng fyrir Diogo, þá hlaut hann að vera gæddur sérstökum hæfileikum.

Við erum ekki enn búin að átta okkur á því að þessir hæfileikar eru horfnir við svona hræðilegar kringumstæður. Þess vegna verða allir félagsmenn að standa saman og styrkja hver annan. Það skuldum við Diogo, það skuldum við André Silva, það skuldum við fjölskyldu þeirra og sjálfum okkur.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til Rute, eiginkonu Diogo, til þeirra þriggja yndislegu barna og til foreldra Diogo og André Silva.

Þegar að því kemur munum við fagna lífi Diogo Jota, við munum rifja upp mörkin hans og syngja söngvana um hann. Núna minnumst við hans sem einstaks manns og syrgjum hann. Hann mun aldrei gleymast.

Hann heitir Diogo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert