Chelsea fær Englending frá Dortmund

Jamie Gittens er á leið til Chelsea.
Jamie Gittens er á leið til Chelsea. AFP/Nicolas Tucat

Þýska knattspyrnufélagið Borussia Dortmund staðfesti nú undir kvöld að Jamie Gittens yrði seldur til enska félagsins Chelsea.

Gengið hefði verið frá samkomulagi í Fort Lauderdale á Flórída en bæði liðin eru komin í átta liða úrslit heimsmeistaramóts félagsliða í Bandaríkjunum.

Kaupverðið getur orðið allt að 56 milljónum punda og Gittens mun skrifa undir sjö ára samning við Lundúnafélagið að undangenginni læknisskoðun.

Gittens er 21 árs gamall kantmaður og Englendingur sem ólst upp hjá Reading en var í röðum Manchester City í tvö ár áður en hann fór sextán ára gamall til Dortmund árið 2020.

Þar hefur hann leikið með aðalliði félagsins frá 2022 og skorað 12 mörk í 76 leikjum í efstu deild Þýskalands.

Gittens hefur leikið með flestöllum yngri landsliðum Englands, nú síðast með 21-árs landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert