Fótboltamenn, íþróttastjörnur og fleiri minnast Diogo Jota og bróður hans André Silva sem létust í bílslysi seint í gærkvöld.
Jürgen Klopp, fyrrverandi stjóri Liverpool, vottaði fjölskyldu Jota samúð sína.
„Ég er niðurbrotinn að heyra um andlát Diogo og bróður hans André. Diogo var ekki aðeins frábær leikmaður heldur líka góður vinur, elskandi og umhyggjusamur eiginmaður og faðir. Við munum sakna þín svo mikið,“ skrifar Klopp á Instagram.
Cristiano Ronaldo, fyrirliði portúgalska landsliðsins, sendi samúðarkveðjur til fjölskyldu Jota á samfélagsmiðlinum Instagram.
Darwin Núnez, liðsfélagi Jota hjá Liverpool, sendir sömuleiðis samúðarkveðjur og minnist Jota.
„Ég mun alltaf muna eftir þér með bros á vör,“ skrifaði Núnez meðal annars.
Liðsfélagar Jota í portúgalska landsliðinu minntust Jota á samfélagsmiðlum.
„Þeir segja að þegar við missum fólk gleymum við því. Ég mun aldrei gleyma þér,“ skrifar portúgalski landsliðsmaðurinn Rúben Neves.
„Hvíldu í friði bróðir,“ skrifar Portúgalinn Rafael Leao. Diogo Dalot, leikmaður Manchester United, skrifar: „Hryllilegt...orðlaus. Samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.“
Íþróttastjörnurnar LeBron James, leikmaður Los Angeles Lakers í körfubolta, og Rafael Nadal, fyrrverandi tennisleikari, vottuðu samúð sína á samfélagsmiðlinum X.
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, minntist einnig Jota og sagði að fréttirnar væru hryllingur.