Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur gefið frá sér tilkynningu eftir fráfall Diogo Jota, leikmanns liðsins, sem lést í bílslysi ásamt bróður sínum André á Spáni seint í gærkvöld.
„Félaginu hefur verið tilkynnt að 28 ára gamli leikmaðurinn hafi látist í bílslysi á Spáni ásamt bróður sínum, André.
Liverpool mun ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu og biður um friðhelgi fjölskyldu, vina, liðsfélaga og starfsfólks Diogo og André verði virt á meðan þau reyna að sætta sig við þennan óhugsandi missi.
Við munum halda áfram að veita þeim okkar fulla stuðning,“ segir í tilkynningu frá félaginu í morgun.
Jota hafði leikið með Liverpool undanfarin fimm ár og verið í stóru hlutverki hjá félaginu. Hann vann ensku úrvalsdeildina, enska bikarinn og deildabikarinn með félaginu.