Ensku knattspyrnufélögin Chelsea og Aston Villa hafa verið sektuð fyrir að brjóta reglur Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, varðandi fjármál.
Chelsea þarf að greiða 27 milljónir punda í sekt, tæplega 4,5 milljarða íslenskra króna, og upphæðin getur hækkað um helming ef félagið stendur ekki við samkomulagið sem það hefur gert við UEFA.
Aston Villa hefur verið sektað um 9,5 milljónir punda, rúmlega 1.500 milljónir króna, og sú upphæð getur hækkað í 13 milljónir punda.
Meðal annarra félaga sem fengu háar sektir eru Barcelona, Lyon, Hajduk Split og Porto.