Áhorfandi á leik Brighton gegn Fulham í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu veiktist í seinni hálfleik og lést eftir leik liðsins gegn Fulham í gær.
Brighton staðfesti þetta í dag en áhorfandinn var 72 ára gamall karlmaður.
„Maðurinn veiktist skyndilega í seinni hálfleik á efri hæð austurstúkunnar og þrátt fyrir ítrustu viðleitni neyðarþjónustu og starfsfólks félagsins tókst læknateyminu ekki að bjarga honum,“ stóð í tilkynningu félagsins.
„Þetta var ótrúlega sorglegur endi á leiknum í dag og við sendum fjölskyldu og vinum mannsins sem lést okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Þótt viðkomandi sé okkur efst í huga, þá vitum við líka að þetta var tilfinningaþrungið og erfitt fyrir starfsfólk og stuðningsmenn sem urðu vitni að atvikinu. Á næstu dögum munum við tryggja að þau fái viðeigandi stuðning,“ var haft eftir framkvæmdastjóra og varaformanni félagsins, Paul Barber, í tilkynningu félagsins.
