BlueCo, fyrirtækið sem á enska knattspyrnufélagið Chelsea og franska félagið Strasbourg, hefur komist að samkomulagi við Brighton & Hove Albion um kaup á paragvæska sóknartengiliðnum Julio César Enciso.
The Athletic greinir frá því að Enciso muni fyrst um sinn ganga til liðs við Strasbourg en sé hugsaður sem framtíðarleikmaður Chelsea.
Hann er 21 árs gamall og er um þessar mundir að jafna sig á hnémeiðslum. Á síðasta tímabili lék Enciso með Ipswich Town að láni frá Brighton en alls á hann að baki 57 leiki í ensku úrvalsdeildinni og hefur skorað fjögur mörk í þeim.
Chelsea er sem fyrr duglegt á leikmannamarkaðnum en breska ríkisútvarpið greinir frá því að portúgalski varnarmaðurinn Renato Veiga verði seldur til Villarreal fyrir upphæð sem nemur allt að 26 milljónum punda.
Þá er Chelsea áhugasamt um Xavi Simons hjá RB Leipzig og Alejandro Garnacho hjá Manchester United.
Auk þess eru Nicolas Jackson, Christopher Nkunku, Raheem Sterling, Ben Chilwell og Axel Disasi allir til sölu í félagaskiptaglugganum.