Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, skaut á kollega sína Mikel Arteta hjá Arsenal og Arne Slot hjá Liverpool á fréttamannafundi í dag.
Man. City hefur eytt um 1,74 milljörðum punda í leikmannakaup síðan Guardiola tók við stjórnartaumunum árið 2016 og oft sætt gagnrýni vegna þess.
Á fréttamannafundi í dag nýtti hann tækifærið til þess að hnýta í Arsenal og Liverpool, en Arsenal eyddi um 300 milljónum punda og Liverpool um 450 milljónum punda í leikmannakaup í sumar.
„Það eina sem ég vil segja við vin minn Mikel Arteta er að ef hann vinnur ensku úrvalsdeildina verður það einungis vegna eyðslu, ekki vegna þess að hann lagði hart að sér!
Eins með Liverpool, ef Arne vinnur titilinn verður það vegna þess að hann eyddi háum fjárhæðum, ekki satt? Því það er ekki bara Manchester City sem hefur gert það, ekki satt? Öll þessi lið gera það,“ sagði Guardiola.
Hann hélt áfram: „Sjáið til, öll þessi félög hafa í mörg, mörg ár getað gert hvað sem þau vilja! Þau vilja eyða því þau vilja það og það er í fínu lagi!
Þá er það eina sem ég get sagt að þau hafa verið skynsöm. Þau hafa eytt því sem þau telja sig geta eytt til þess að keppa við bestu liðin í ensku úrvalsdeildinni og í Evrópu.“
Arsenal tekur á móti Manchester City í stórleik í 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudag. Leikurinn hefst klukkan 15.30 og verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.