Rifjaði upp afar fallega sögu af Diogo Jota

Diogo Jota og Beto.
Diogo Jota og Beto. AFP/Samsett/Paul Ellis & Vincent Carchietta

Knattspyrnumaðurinn Beto, sóknarmaður Everton, segir Diogo Jota heitinn hafa verið þann fyrsta sem hafi sett sig í samband við sig og boðið fram aðstoð þegar hann samdi við Everton, erkifjendur Liverpool.

Beto, sem er fæddur og uppalinn í Portúgal eins og Jota, spilar fyrir landslið Gíneu-Bissá. Hann samdi við Everton fyrir rétt rúmum tveimur árum.

„Daginn sem ég kom hingað biðu mín skilaboð: „Ég samgleðst þér. Ef þú þarft á einhverju að halda í borginni get ég hjálpað þér. Hóaðu bara í mig.“ Skilaboðin voru frá Diogo Jota.

Hann lét mér líða eins og ég væri velkominn í Liverpool. Ég þekkti hann ekki einu sinni. Af öllum stóru nöfnunum frá Portúgal sem spila á Englandi var hann sá fyrsti sem sendi mér skilaboð,“ sagði Beto í samtali við The Times.

Lífið er meira en fótbolti

Sóknarmaðurinn sagðist finna fyrir mikill samheldni á meðal stuðningsmanna Everton og Liverpool eftir að Jota féll sviplega frá í bílslysi í sumar.

„Ég sá mikla samheldni milli Everton og Liverpool. Milli félaganna en meira á milli stuðningsmannanna.

Jafnvel þó hann hafi verið keppinautur er hann meira en fótbolti. Þannig er lífið. Lífið er meira en fótbolti,“ sagði Beto einnig.

Liverpool og Everton mætast á Anfield í 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar klukkan 11.30 á morgun. Leikurinn verður í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert