Franski knattspyrnumaðurinn Ibrahima Konaté þvertekur fyrir það að vera búinn að semja við forráðamenn knattspyrnuliðs Real Madrid um að ganga til liðs við spænska félagið næsta sumar.
Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en framtíð Konatés, sem er 26 ára gamall og samningsbundinn Englandsmeisturum Liverpool, hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu.
Leikmaðurinn verður samningslaus næsta sumar og hefur ekki ennþá viljað skrifa undir nýjan samning í Liverpool en hann hefur hafnað síðustu þremur tilboðum enska félagsins.
Þá hefur hann verið sterklega orðaður við Real Madrid og greindi spænski miðillinn Marca meðal annars frá því að Konaté væri búinn að semja á Spáni, frá og með næsta keppnistímabili.
Sportsmail greinir hins vega frá því að Konaté sé ekki búinn að gera upp hug sinn og að hann sé ennþá opinn fyrir því að halda kyrru fyrir á Anfield.
