Wayne Rooney, markahæsti leikmaðurinn í sögu enska knattspyrnuliðsins Manchester United, mátti þola ýmislegt á árum sínum sem leikmaður en hann lék einnig með Everton og Derby á Englandi.
Hann ræddi aðbúnað sem gestalið máttu þola á mismunandi völlum í ensku úrvalsdeildinni í hlaðvarpi sínu The Wayne Rooney Show á BBC.
„Það var alltaf skítkalt á Anfield. Það var eins og þeir pössuðu að slökkva á öllum hita og það var greinilega planað.
Það var allt of heitt alltaf á Stamford Bridge. Þar skipti maður um föt og hljóp út,“ sagði Rooney og hélt áfram.
„Í útileik gegn Sunderland lentum við í því að klósett á hæðinni fyrir ofan fór að leka og við fengum allt sem var í klósettinu yfir okkur.
Það var svo mjög vinsælt að sprengja flugelda fyrir framan hótelin okkar,“ sagði Rooney.
