Chelsea hafði betur gegn Liverpool 2:1 í sjöundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Stamford Bridge í London í dag.
Brasilíski táningurinn Estevao tryggði Chelsea sigurinn og stigin 3 með marki þegar 5 mínútur voru liðnar af uppbótartíma en 7 mínútum hafði verið bætt við venjulegan leiktíma.
Liverpool er með 15 stig úr sjö leikjum en Chelsea er með 11 stig eins og Sunderland í 6. og 7. sæti. Liverpool missti í dag Arsenal upp fyrir sig í toppbaráttunni en Arsenal er með 16 stig.
Liverpool tapaði um síðustu helgi fyrir bikarmeisturunum Crystal Palace og í vikunni fyrir tyrkneska stórliðinu Galatasaray í Meistaradeild Evrópu. Tapleikirnir eru þar með orðnir þrír í röð.
Georgíumaðurinn Giorgi Mamardashvili stóð í marki Liverpool í fjarveru Alisson sem meiddist í Evrópuleiknum. Hann verður ekki sakaður um fyrri mark Chelsea en þá skoraði Caicedo með föstu skoti sem hafnaði efst í vinstra horninu. Caicedo fékk reyndar góðan tíma til að stilla miðið en afgreiðslan var eins og best verður á kosið. Maðurinn sem Chelsea og Liverpool kepptu um á sínum tíma þegar hann var falur eftir góða frammistöðu með Brighton.
Chelsea var 1:0 yfir að loknum fyrri hálfleik Caicedo skoraði á 14. mínútu. Liverpool jafnaði á 63. mínútu og það gerði Cody Gakpo á 63. mínútu. Skoraði af markteig eftir fyrirgjöf Szoboszlai frá hægri og snertingu hjá Isak.
Svo virtist sem liðin myndu fá sitt hvort stigið eða þar til Cucurella komst upp að endamörkum vinstra megin og renndi fyrir markið. Estevao fékk boltann á fjærstönginni og skoraði auðveldlega.
Enzo Maresca knattspyrnustjóri Chelsea var sendur í bað í framhaldinu. Hann fagnaði geysilega og fékk fyrir það gult spjald. Hann hafði verið spjaldur fyrr í leiknum fyrir mótmæli.