Grealish hetjan í Liverpool - Erfiðleikar Forest halda áfram

Grealish tryggði Everton sigurinn í Liverpool í dag.
Grealish tryggði Everton sigurinn í Liverpool í dag. AFP/Darren Staples

Jack Grealish tryggði Everton sigur á heimavelli gegn Crystal Palace, 2:1, á lokamínútunum í 7. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

Everton er því í 7. sæti deildarinnar með 11 stig á meðan Crystal Palace er í 5. sæti með 12 stig. Þetta er fyrsti tapleikur Palace í tólf leikjum.

Palace voru öflugri í fyrri hálfleik og það var hann Daniel Munoz sem kom þeim yfir á 37. mínútu.

Í seinni hálfleik skiptist þetta alveg og sótti Everton nánast allan hálfleikinn. Á 74. mínútu fiskaði Tim Iroegbunam víti er Maxence Lacroix tók hann niður í teignum. Iliman Ndiaye steig á punktinn og jafnaði metin.

Á annarri mínútu uppbótartíma tryggði Jack Grealish Everton sigurinn er hann fékk boltann í sig af stuttu færi og boltinn hafnaði í netinu.

Everton-menn fagna marki Grealish.
Everton-menn fagna marki Grealish. AFP/

Erfið byrjun Ange postecoglou hélt áfram í dag þar sem Nottingham Forest mátti þola tap gegn Newcastle á útivelli.  

Um mikla einstefnu var að ræða þar sem Newcastle óð í færum á meðan Forest fengu fá tækifæri.

Bruno Guimaraes kom Newcastle yfir á 58. mínútu og Nick Woltemade tryggði Newcastle sigurinn á 84. mínútu er hann skoraði úr víti.

Donyell Malen skoraði bæði mörk Aston Villa í sigri gegn Burnley, 2:1.

Aston Villa voru töluvert líklegri allan leikinn og skoraði Malen fyrsta mark sitt á 25. mínútu leiksins og bætti svo við öðru á 63. mínútu. Lesley Ugochhukuwu minnkaði muninn á 78. mínútu en ekki urðu mörkin fleiri.

Wolves og Brighton skildu jöfn, 1:1. Brighton fékk töluvert fleiri marktækifæri en á 21. mínútu setti Bart Verbruggen boltann í sitt eigið net og kom Wolves yfir. Stuttu fyrir markið var Vitor Pereira, knattspyrnustjóri Wolves, rekinn af velli. Hann var ósáttur yfir dómgæslu leiksins og fékk að lúta rautt spjald fyrir það.

Brighton sótti og sótti í leit að marki sem kom loksins á 86. mínútu þegar Jan Paul van Hecke skallaði boltann í netið.

Síðasti leikur umferðarinnar milli Manchester City og Brentford er klukkan 15:30 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert