Níunda mark Haaland tryggði City sigurinn

Erling Braut Haaland skoraði sitt 9. mark tímabilsins gegn Brentford …
Erling Braut Haaland skoraði sitt 9. mark tímabilsins gegn Brentford í dag. AFP/Adrian Dennis

Manchester City hafði betur gegn Brentford, 0:1, í 7. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. 

City fer þá upp í 5. sæti deildarinnar með 13 stig á meðan Brentford hefur ekki náð sér á skrið eftir að hafa misst marga leikmenn og þjálfara í sumar og situr í 16. sæti með 7 stig.

Það tók Erling Braut Haaland ekki langan tíma að skora fyrsta og eina mark leiksins og kom það á 9. mínútu leiksins.

Þá fékk hann góða sendingu í gegnum vörn Brentford frá Josko Gvardiol, náði að skýla boltanum frá varnarmönnum Brentford og afgreiddi færið feikilega vel og kom City yfir, 1:0.

Haaland hefur farið vel af stað þetta tímabil og var þetta hans 9. mark á tímabilinu í sjö leikjum.

City var töluvert meira með boltann allan leikinn en voru ekki að skapa sér mörg færi. Af og til fengu Brentford-menn skyndisóknir sem þeir náðu hins vegar ekki að nýta.

City sigldi því 1:0-sigri í höfn og fara inn í landsleikjahléið taplausir í síðustu fimm leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert