Carragher lætur Bæjara heyra það

Nick Woltemade með boltann í leik með Newcastle United.
Nick Woltemade með boltann í leik með Newcastle United. AFP/John Thys

Jamie Carragher, fyrrverandi knattspyrnumaður og núverandi sparkspekingur á Sky Sports, gefur lítið fyrir ummæli Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarmanns hjá Bayern München, um Nick Woltemade, sóknarmann Newcastle United á dögunum.

Rummenigge sagði um Woltemade, sem Bayern vildi ólmt festa kaup á áður en Newcastle greiddi Stuttgart 65 milljónir punda til þess að tryggja sér þjónustu hans:

„Ég verð að óska þeim í Stuttgart til hamingju með það að hafa tekist að finna, og nú nota ég gæsalappir, hálfvita sem vildi borga svona háa fjárhæð.

Við hefðum svo sannarlega ekki gert það í München. Við ættum ekki að láta undan kröfum annarra til þess að þóknast þeim, sérstaklega þessum fjárfestum í Stuttgart.“

Sýnir mikla vanvirðingu

„Ég er mjög hrifinn af honum [Woltemade]. Ég las þessi ummæli fyrir nokkrum dögum og þau reittu mig til reiði, og ég er ekki stuðningsmaður Newcastle United.

Mér fannst það vera grín að knattspyrnufélag, mjög virt knattspyrnufélag á við Bayern München, tali svona. Að þeir tali svona um leikmann, sérstaklega þýskan leikmann, finnst mér vera vanvirðing.

Ég er viss um að þetta hafi verið í öllum fjölmiðlum í Þýskalandi og fjölskylda hans og vinir lesa ummælin. Þetta er okkar starf sem sparkspekinga, ekki einhver sem tengist svona stórkostlegu félagi.

Mér fannst þetta sýna mikla vanvirðingu. Ég hugsaði þegar ég las þetta að ég vona innilega að þessi strákur sýni þeim hvað í sér býr. Miðað við byrjun hans á ferlinum í úrvalsdeildinni er allt útlit fyrir að hann geri það.“

Woltemade hefur skorað fjögur mörk í fyrstu sjö leikjum sínum fyrir Newcastle, þar af þrjú í síðustu fjórum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert