Thomas Tuchel, þjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur kallað Nico O’Reilly, vinstri bakvörð Manchester City, inn í landsliðshópinn í fyrsta sinn.
O’Reilly, sem er tvítugur, kemur inn í landsliðshópinn í stað Reece James, fyrirliða Chelsea, sem neyddist til að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.
James meiddist í 2:1-sigri Chelsea á Liverpool og tilkynnti sjálfur á Instagram að hann neyddist til að draga sig úr hópnum vegna skurðar á sköflungi.
O’Reilly hefur spilað níu leiki fyrir Man. City á tímabilinu eftir að hafa brotið sér leið í liðið á síðasta tímabili. Þá skoraði hann fimm mörk í 21 leik í öllum keppnum en O’Reilly getur einnig spilað á miðjunni.
