„England með fáránlegan leikmannahóp“

Craig Bellamy er landsliðsþjálfari Wales.
Craig Bellamy er landsliðsþjálfari Wales. AFP/Henry Nicholls

Craig Bellamy, þjálfari velska karlalandsliðsins í knattspyrnu, viðurkennir að hann öfundi enska landsliðið af þeim mikla fjölda leikmanna sem því stendur til boða að velja.

„England er með fáránlegan leikmannahóp, eins og Frakkland. Samanlagt markaðsvirði þeirra er 1,4 milljarðar punda, okkar leikmannahópur er metinn á 170 milljónir punda.

Ef þetta væru hnefaleikar væri okkur ekki leyft að keppa við hvort annað. Við einblínum ekki á peningalegt virði en staðreyndin er sú að þeir eru ekki bara með eitt samkeppnishæft lið.

Þeir eru með tvö, þrjú, fjögur lið. Frakkland og önnur lið eru á sama stigi. England er með fjöldann allan af frábærum leikmönnum og það er einfaldlega sannleikurinn.

Einn hægri bakvörður meiddist um daginn og þá eiga þeir bara 24 til taks! Þeir eru með um 60 toppleikmenn. Mér þætti ekki leiðinlegt ef ég gæti valið úr svona mörgum leikmönnum eins og þeir,“ sagði Bellamy á fréttamannafundi.

England fær nágranna sína í Wales í heimsókn á Wembley í undankeppni HM 2026 á fimmtudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert