Knattspyrnumaðurinn John Stones, miðvörður Manchester City og enska landsliðsins, viðurkennir að hann hafi íhugað að leggja skóna á hilluna á síðasta tímabili vegna þrálátra meiðsla.
Stones, sem er 31 árs, hefur mest náð að spila 27 leiki á einu tímabili með Man. City frá því hann var keyptur frá Everton sumarið 2016, enda meiðsli látið á sér kræla á hverju einasta þeirra.
„Síðasta tímabil var erfitt fyrir mig, svo erfitt að ég íhugaði að hætta. Ég vildi ekki gera þetta lengur. Ég var kominn með nóg af því að vera fagmannlegur og reyna að gera það sem í mínu valdi stóð til að gera allt rétt.
Ég hélt áfram en brotnaði niður og var ekki með svörin. Það var mjög erfiður staður að vera á. Það kemur að þeim tímapunkti að þú veist ekki af hverju þetta gerist og það er enn erfiðara þegar þú leggur svona mikið á þig.
Þegar þú ert afskaplega fagmannlegur til þess að reyna að vera fær um að spila. Þegar sú stund rennur upp og eitthvað gerist væri auðveldara að segja: Ég gerði ekki þetta og hitt, þess vegna meiddist ég.
En þegar þú ert að gera það sem þú átt að gera er það andlega lýjandi. Vonandi fer ég ekki aftur á þann stað,“ sagði Stones í samtali við BBC Radio 5 Live.