Velski knattspyrnumaðurinn Tom Lockyer hefur fengið grænt ljós á að snúa aftur á völlinn, tæpum tveimur árum eftir að hann spilaði síðast. Lockyer fór í hjartastopp í síðasta leik sínum með Luton Town í desember 2023.
Hann hafði einnig farið í hjartastopp sjö mánuðum fyrr í leik með Luton.
Hjartagangráður var græddur í Lockyer eftir síðara hjartastoppið en tvær aðgerðir á ökkla undanfarið ár hafa seinkað endurkomu miðvarðarins á völlinn.
Hann greindi frá því að hafa fengið grænt ljós á að spila aftur í hlaðvarpsþættinum Feast of Football á dögunum. Lockyer er án félags sem stendur en samningur hans við Luton rann út í sumar.
