Miðjumaður United til Ítalíu?

Kobbie Mainoo býr sig undir að koma inn á sem …
Kobbie Mainoo býr sig undir að koma inn á sem varamaður. AFP/Paul Ellis

Ítalíumeistarar Napólí hafa mikinn áhuga á að fá enska knattspyrnumanninn Kobbie Mainoo, miðjumann Manchester United, til liðs við sig.

Sky Sports greinir frá því að ítalska félagið hafi verið í viðræðum við Man. United í sumar um möguleg kaup á Mainoo en ekkert varð af skiptunum.

Napólí, þar sem Antonio Conte er knattspyrnustjóri, er enn áhugasamt og vonast til þess að fá miðjumanninn tvítuga til liðs við sig að láni í janúarglugganum, með kaupmöguleika.

Napólí hefur sótt leikmenn til Man. United að undanförnu með mjög góðum árangri en Scott McTominay var valinn besti leikmaður ársins í ítölsku A-deildinni á síðasta tímabili og Rasmus Höjlund fer geysilega vel af stað á þessu tímabili eftir að hafa komið að láni frá enska félaginu í sumar.

Mainoo hefur spilað sex leiki fyrir Man. United á tímabilinu í öllum keppnum, flesta eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert