Orðaður við Liverpool

Antoine Semenyo hefur farið hamförum með Bournemouth á leiktíðinni.
Antoine Semenyo hefur farið hamförum með Bournemouth á leiktíðinni. AFP/PAul Ellis

Liverpool er sagt hafa áhuga á Antoine Semenyo, leikmanni Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Manchester United, Chelsea og Tottenham eru einnig sögð vera tilbúin að greiða háa upphæð fyrir leikmanninn. 

Semenyo hefur slegið í gegn í upphafi leiktíðar. Hinn 25 ára gamli sóknarmaður hefur skorað sex mörk og lagt upp þrjú í sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni það sem af er tímabili og er í öðru sæti á listanum yfir markahæstu leikmenn á eftir Erling Haaland.

Semenyo skrifaði undir nýjan fimm ára samning við Bournemouth í sumar, en Manchester United og Tottenham sýndu leikmanninum áhuga í sumar. 

Blaðamaður TalkSport, Alex Crook, greinir frá því að Liverpool sé að fylgjast grannt með gangi mála hjá Semenyo og sé að íhuga tilboð í leikmanninn á næsta ári. Haldi Semenyo uppteknum hætti er talið að kaupverðið gæti orðið í kringum 86 milljónir punda.

Semenyo, sem er fæddur í Englandi, hefur leikið 29 landsleiki fyrir Gana en faðir hans er frá Ghana. Hann lék meðal annars með Gana í heimsmeistarakeppninni í Katar árið 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert