Skoða stækkun á Emirates

Arsenal kannar nú hvort mögulegt sé að stækka leikvang sinn, …
Arsenal kannar nú hvort mögulegt sé að stækka leikvang sinn, Emirates. AFP/Henry Nicholls

Knattspyrnufélagið Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta er að kanna möguleikann á að stækka leikvang sinn Emirates. Emirates-leikvangurinn er nú fjórði stærsti leikvangur Lundúnarborgar en hann tekur 60.700 áhorfendur í sæti. 

Arsenal lék á Highbury vellinum frá árinu 1913 til ársins 2006 en hann tók aðeins 38.419 áhorfendur í sæti. Félagið færði sig um set á Emirates völlinn árið 2006.

Wembley er stærsti knattspyrnuleikvangur Lundúna en nýi Wembley opnaði árið 2007, en hann var byggður á grunni þessa gamla sem hafði hýst knattspyrnuleiki ásamt fleiri viðburðum í átta áratugi eða frá 1923-2003.

Nýr heimavöllur Tottenham, Tottenham Hotspur Stadium sem var tekinn í notkun árið 2019, tekur 62.850 manns í sæti. London Stadium tekur 62.500 manns í sæti en hann var byggður fyrir Ólympíuleikana í Lundúnum árið 2012 og hefur verið heimavöllur enska úrvalsdeildarfélagsins West Ham frá árinu 2016

Talið er að bandaríski eigandi Arsenal, Stan Kroenke, vilji auka fjölda áhorfenda í 70.000 sem myndi auka tekjur af leikdegi verulega, enda eru yfir 100.000 stuðningsmenn á biðlista eftir ársmiðum.

Arsenal skipaði starfshóp í fyrra til að kanna hvort möguleiki á stækkun væri til staðar en heimildir benda til þess að umræður séu enn í gangi og nokkrir möguleikar hafi verið skoðaðir en engin ákvörðun hafi verið tekin. 

Ef til framkvæmda kemur er óvíst hvort Arsenal þurfi að spila leiki sína annars staðar tímabundið. Félaginu tókst að forðast það þegar það yfirgaf Highbury, en frétt frá breska miðlinum Telegraoh á þriðjudag sagði frá því að tímabundinn flutningur til Wembley gæti verið í boði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka