Enski knattspyrnumaðurinn Cole Palmer, sóknartengiliður Chelsea, verður frá keppni vegna meiðsla fram í nóvember.
Palmer er að glíma við þrálát nárameiðsli sem taka sig stöðugt upp aftur. Hefur hann aðeins náð að spila fjóra leiki í öllum keppnum á tímabilinu vegna þeirra.
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að Palmer muni ekki spila fyrr en í fyrsta lagi í næsta mánuði þar sem Chelsea vilji gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að hann geti jafnað sig að fullu.
Knattspyrnustjórinn Enzo Maresca talaði í þá veru eftir 2:1-tap fyrir Manchester United fyrir þremur vikum og sagði að Chelsea myndi vernda Palmer.
