„Vorum allir sjálfselskir aumingjar“

Steven Gerrard.
Steven Gerrard. AFP

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Steven Gerrard fór ekki sem köttur í kringum heitan graut þegar hann var spurður að því hvers vegna ógnarsterkt enskt landslið sem hann tilheyrði hafi ekki áorkað neinu á sínum tíma.

Gerrard lék með Englandi á árunum 2000 til 2014 og á þeim tíma komst liðið ekki lengra en í átta liða úrslit á stórmótum þrátt fyrir að geta teflt fram öflugum leikmönnum á við hann sjálfan, Frank Lampard, Rio Ferdinand, John Terry, Wayne Rooney, Michael Owen, Paul Scholes og fleiri.

„Ég tel okkur alla hafa verið sjálfselska aumingja,“ sagði Gerrard í hlaðvarpsþættinum Rio Ferdinand Presents og minntist þar á að honum væri mun betur til vina við Ferdinand nú orðið en þegar þeir voru liðsfélagar í landsliðinu.

Eins og þeir hafi verið vinir í 20 ár

Gerrard nefndi fleiri dæmi um að fyrrverandi leikmenn Liverpool og Manchester United væru góðir vinir núna en ekki þá.

„Það er eins og þeir hafi verið vinir í 20 ár,“ sagði Gerrard um vinskap vinar síns Jamie Carragher við Neville og Scholes.

„Af hverju gátum við ekki tengst þegar við vorum 20-23 ára gamlir? Var það egóið? Var það rígurinn? Af hverju erum við allir nógu þroskaðir í dag til þess að eiga gott og náið samband? Af hverjum gátum við ekki tengst sem liðsfélagar hjá Englandi þá?

Ég held að það tengist kúltúrnum innan enska liðsins að við tengdumst ekki. Við vorum allir of mikið einir í herbergjum okkar. Við vorum ekki lið. Við náðum aldrei að verða sterkt og gott lið,“ hélt hann áfram.

Leið ekki þannig hjá Liverpool

Gerrard leið ekki vel þegar hann kom til móts við landsliðið. „Ég hataði það. Ég naut þess ekki. Ég þoldi ekki hótelherbergin. Suma daga var ég langt niðri. Ég er í herberginu í sjö tíma, hvað á ég að gera? Það voru engir samfélagsmiðlar.

Við vorum ekki með DVD-spilara í herbergjunum. Ég elskaði að spila fyrir England og var mjög stoltur af því. Ég elskaði að æfa en æfingarnar voru bara 90 mínútur og svo var ég einn á báti. Mér leið ekki eins og ég væri hluti af liði.

Mér fannst ég ekki vera hluti af liði. Mér fannst ég ekki tengjast liðsfélögum mínum hjá Englandi. Þannig leið mér ekki hjá Liverpool. Það voru bestu dagar ævi minnar. Með Englandi vildi ég bara ljúka leikjunum og æfingunum og drífa mig aftur til baka,“ sagði Gerrard.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert