Enski knattspyrnumaðurinn Martin Kelly hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 35 ára að aldri.
Kelly var síðast á mála hjá West Bromwich Albion í ensku B-deildinni en samningur hans rann út sumarið 2024 og hafði Kelly ekkert spilað síðan þá.
Hann hóf ferilinn hjá uppeldisfélagi sínu Liverpool og lék alls 62 leiki í öllum keppnum og skoraði eitt mark, í enska deildabikarnum sem vannst árið 2012.
Kelly lék sem miðvörður og hægri bakvörður og á einn A-landsleik fyrir England, sem kom árið 2012. Sama ár var hann í lokahópi Englands á EM en kom ekkert við sögu á mótinu.
Lengst af lék hann með Crystal Palace, eða frá 2014 til 2022, alls 148 leiki og skoraði eitt mark.
