Tuchel hraunar yfir stuðningsmenn

Thomas Tuchel á hliðarlínunni á Wembley í gærkvöldi.
Thomas Tuchel á hliðarlínunni á Wembley í gærkvöldi. AFP/Ben Stansall

Thomas Tuchel, þjálfari enska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var verulega ósáttur við lítinn stuðning í 3:0-sigri liðsins á Wales í vináttulandsleik á Wembley í gærkvöldi.

„Leikvangurinn var þögull. Alveg þögull. Við fengum aldrei neina orku til baka frá stúkunni. Ég tel leikmennina hafa skilað miklu og átt skilið að fá meira úr stúkunni,“ sagði Tuchel í samtali við ITV Sport eftir leik.

England komst í 3:0 eftir aðeins 20 mínútna leik með mörkum frá Morgan Rogers, Ollie Watkins og Bukayo Saka.

Heyrðist bara í stuðningsmönnum Wales

„Það var erfitt að halda þessu við í síðari hálfleik. Við stóðum okkur frábærlega og verðskulduðum sigurinn,“ bætti Þjóðverjinn við og var spurður hvort hann hefði búist við meiru frá stuðningsmönnum Englands.

„Já, hvað getum við gefið þeim meira? Tuttugu mínútur, þrjú mörk. Hvernig við sóttum á Wales og sáum til þess að liðið kæmist hvergi undan.

Ef maður hlustar í svona hálftíma voru það bara stuðningsmenn Wales sem heyrðist í. Það er svolítið leitt því mér fannst liðið eiga skilið mikinn og góðan stuðning,“ svaraði Tuchel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert