Enski knattspyrnumaðurinn Kyle Walker sér eftir því að hafa farið frá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester City á sínum tíma.
Walker fór frá Manchester City til AC Milan í janúar á þessu ári en hann var fyrirliði liðsins en fékk ekki margar mínútur.
„Hefði ég átt að fara? Nei, þegar ég horfi til baka núna þá hefði ég átt að standa með liðsfélögum mínum og hjá vinum mínum og þeim sem ég tel vera fjölskyldu mína.
Í fyrsta skipti á ferlinum var ég sjálfselskur, ég vildi spila fótbolta. Ég sé það ekki sem slæma ástæðu, ég var ekki ánægður að sitja á bekknum og fá einn og einn leik.
Mér fannst ég þurfa að sanna mig, mér fannst ég enn þá geta spilað fótbolta á háu getustigi og þegar það kom möguleiki að fara í félag eins og AC Milan leið mér eins og ég gæti ekki hafnað því vitandi það að ég var á bekknum,“ sagði Walker við Sky Sports.
