Norski knattspyrnumaðurinn Martin Ödegaard, fyrirliði Arsenal, verður frá keppni vegna hnémeiðsla næstu sex vikurnar.
Ödegaard hefur átt í meiðslavandræðum á tímabilinu og verið skipt af velli í fyrri hálfleik í síðustu þremur byrjunarliðsleikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni.
Enskir miðlar greina frá því að hann hafi skaddað liðband í vinsta hné en að Ödegaard þurfi ekki á skurðaðgerð að halda vegna meiðslanna.
Hins vegar sé ljóst að hann missi af næstu sjö leikjum liðsins og spilar því ekki aftur fyrr en í lok nóvember.
