Enska knattspyrnusambandið hefur úrskurðað Enzo Maresca, knattspyrnustjóra Chelsea, í eins leiks bann. Maresca fékk rautt spjald þegar hann fagnaði dramatísku sigurmarki Chelsea gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni um þarsíðustu helgi.
Knattspyrnusambandið kærði ítalska stjórann fyrir óviðeigandi hátterni sitt en Maresca fagnaði sem óður maður með leikmönnum og stuðningsmönnum eftir að hafa hlaupið langt út fyrir boðvang sinn.
Fyrir vikið fékk Maresca sitt annað gula spjald og þar með rautt en fyrra gula spjaldið fékk hann fyrir kröftug mótmæli.
Maresca gekkst fúslega við sekt sinni og verður ekki á hliðarlínunni þegar Chelsea heimsækir Nottingham Forest í úrvalsdeildinni á laugardag.
Hann var auk þess sektaður um 8.000 pund.
