Fyrirliði United seldur á útsöluverði?

Bruno Fernandes.
Bruno Fernandes. AFP/Patricia De Melo

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United eru sagðir vilja fá í kringum 40 milljónir punda fyrir fyrirliða sinn Bruno Fernandes ef hann verður seldur innan Evrópu.

Það er Teamtalk sem greinir frá þessu en Fernandes, sem er 31 árs gamall, hefur verið orðaður við brottför frá United undanfarna mánuði.

Portúgalski miðjumaðurinn var nálægt því að ganga til liðs við Al Hilal í Sádi-Arabíu í sumar en félagið var tilbúið að borga í kringum 100 milljónir punda fyrir Fernandes.

Leikmaðurinn sjálfur var hins vegar ekki tilbúinn að fara til Sádi-Arabíu en hann gæti farið til Frakklands, Spánar eða Þýskalands næsta sumar eftir að hafa gengið til liðs við United frá Sporting í janúar árið 2020.

Portúgalinn hefur verið lykilmaður á Old Trafford síðan þá en alls á hann að baki 298 leiki fyrir félagið þar sem hann hefur skorað 100 mörk og lagt upp önnur 86 til viðbótar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert