Portúgalska knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo segir Rúben Amorim, knattspyrnustjóra Manchester United, ekki geta gert kraftaverk með liðið.
Man. United hafnaði í 15. sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og hóf yfirstandandi tímabil rólega. Í undanförnum fjórum leikjum hefur liðið hins vegar unnið þrjá og gert eitt jafntefli.
„Hann er að gera sitt besta. Hvað á maður að gera? Framkvæma kraftaverk? Kraftaverk eru ómöguleg. Í Portúgal segjum við: „Kraftaverkin gerast einungis í Fatima.“ Hann er ekki að fara að framkvæma kraftaverk.
Þeir eru með góða leikmenn en mér finnst sem sumir þeirra hafi það ekki í huga hvað Manchester United táknar. Ég elska þetta félag en við verðum að vera hreinskilnir, líta í eigin barm og segja að þeir eru ekki á góðri leið,“ sagði Ronaldo í sjónvarpsþættinum Piers Morgan Uncensored.
